Þjónustuveitur hafa móttekið lista yfir notendur í áfanga 18. Eigendur tengistaða sem tilheyra áfanga 18 geta því pantað fjarskiptaþjónustu.
Rétt er að árétt mikilvægi þess að hafa LL númerið sem stendur á inntaksboxi ljósleiðarans við hendina þegar pöntuð er fjarskiptaþjónusta. Þetta er einkenni ykkar tengingar og tryggir að þið pantið nú örugglega tengingu á réttan stað. Númerið er á þessu formi: LLxxx.Txx.xx. Gæti til dæmis verið LL118.T17.01.
Eins og fram kom um miðjan október er veðurfar áhrifavaldur í framgangi verkefnisins okkar. Vinna við áfanga 16 heldur þó áfram og þessa dagana er unnið að frágangi við brunna og inntök tengistaða. Einnig er unnið við blástur á ljósleiðarastreng í rörin enda tókst okkur að koma öllum rörum í jörðu áður en frostið kom í veg fyrir plægingu. Það lítur því út fyrir það að fljótlega á nýju ári verði hægt að ljúka vinnu við stærstan hluta af áfanga 16.
Næsti áfangi sem unnið verður við er áfangi 15. Sá áfangi liggur frá Varmalandi að Hlöðutúni, Sólheimatungu og Svignaskarð og að Galtarholti og Heyholti í suður átt. Einnig tilheyrir lagnaleiðin frá Ási að Svarfhóli áfanganum og lagnaleiðin frá Túni að Grímsstöðum um Valbjarnarvelli. Veturinn leiðir í ljós hvenær hafist verður handa við lagningu á áfanga 15.
Comments